Lánardrottnar þrotabús trésmiðjunnar TH á Ísafirði fengu rúm 30% af kröfum sínum greiddar við uppgjör á búinu. Þrjátíu starfsmönnum TH á Ísafirði og Akranesi var sagt upp í lok nóvember árið 2011 og var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota í desember sama ár. Fyrirtækið hét áður Trésmiðjan Hnífsdal og hafði þá verið starfandi frá árinu 1958. Trésmiðjan keypti árið 2010 Trésmiðju Þráins Gíslasonar á Akranesi og var frá þeim tíma á tveimur stöðum.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúinu lauk 3. júní síðastliðinn.

Í blaðinu kemur fram að lýstar kröfur námu 334,8 milljónum króna. Af samþykktum veðkröfum fengust greiddar 68,3 milljónir eða 65,57% af lýstum kröfum og 38,8 milljónir króna af samþykktum forgangskröfum. Það jafngildir 67,8% af kröfunum. Ekkert fékkst hins vegar greitt upp í almennar kröfur né eftirstæðar.