Skiptum er lokið á félaginu VOS ehf. en alls námu lýstar kröfur rúmlega milljarði króna, eða 1.035 milljónum króna. Alls fékkst upp í lýstar kröfur um 12,3 milljónir króna, eða 1,2% af lýstum kröfum. Þetta kom fram í Lögbirtingarblaðinu.

Félagið hét upphaflega Víðir og Synir og var eitt þriggja félaga félaga sem enn voru í eigu VBS árið 2011. Félögin voru þá ennþá í fasteignarekstri þótt að rekstur þeirra væri verulega laskaður samkvæmt upplýsingum sem gefnar voru á kröfuhafafundi það ár.

Félögin þrjú voru Stórás ehf., Framtíðarleiga ehf. og auk félagsins Víðir og Synir ehf., sem var breytt í VOS ehf. Skiptum var lokið á Stórási ehf. í byrjun jan­úar 2014 en lýstar kröfur námu rúmlega 4 milljörðum króna en ríflega 45 milljónir króna fengust upp í lýstar kröfur. Miðvikudaginn 15. desember sl. var einnig birt tilkynning um skiptalok á félaginu Framtíðarleiga en alls námu lýstar kröfur 223 milljónum króna án þess að greiðsla fengist upp í kröfur.

Um miðjan desember ræddi Viðskiptablaðið við Hróbjart Jónatansson, skiptastjóra VBS þar sem kom fram að skiptum á VBS muni að mestum líkindum ljúka í vor. Einnig kom fram að áætlaðar endurheimtur verði á bilinu 13% til 15%.