Slitameðferð SPRON, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf, er nú lokið, en tilkynning um lok skipta birtist í Lögbirtingarblaðinu í dag.

SPRON var tekin til slitameðferðar þann 23. júní 2009 og honum skipuð slitastjórn. Slitastjórnin gerði frumvarp að nauðasamningi, en það var samþykkt með 100% greiddra atkvæða þann 16. desember 2015, en hann var staðfestur fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. janúar á þessu ári.

Meginefni nauðasamningsins var:

  • Í nauðasamningi SPRON er boðin fram lágmarksgreiðsla í reiðufé allt að 1,0 milljón króna til almennra kröfuhafa, sem hefur þau áhrif að kröfuhafar sem eiga upprunalegar kröfur að fjárhæð allt að 1,0 milljón króna verður greitt að fullu.
  • Samningskröfuhafar sem fá ekki greitt að fullu með lágmarksgreiðslunni fá viðbótargreiðslu í formi breytanlegra skuldabréfa sem gefin verða út af SPRON,en á grundvelli þeirra verður hagnaði af framtíðar sölu eigna úthlutað í evrum ársfjórðungslega til kröfuhafa.
  • Samningskröfuhafar fá úthlutað nýju hlutafé í SPRON hf. og munu eignast félagið að fullu.
  • Með fyrirfara um endanlegt verðmæti breytanlegu skuldabréfanna og nýju hlutanna felur nauðasamningurinn í sér boð um greiðslu 3,29% af samningskröfu hvers nauðasamningskröfuhafa.
  • Hvorki verði greiddir vextir af samningskröfum né sett trygging fyrir efndum nauðasamningsins.
  • Greiðslur til kröfuhafa á grundvelli samningsins munu fara fram í samræmi við tímasetta áætlun sem kynnt var kröfuhöfum, eftir að heimild Seðlabanka Íslands liggur fyrir.

Frestur til að skjóta úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar er runninn út án þess að málskot hafi átt sér stað og telst nauðasamningurinn því staðfestur. Slitameðferð er því lokið og slitastjórnin mun efna nauðasamninginn fyrir hönd félagsins.