*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 7. maí 2011 09:59

Skiptum á þrotabúi B5 lokið

Lýstar kröfur í þrotabú B5 ehf. námu alls tæpum 200 milljónum. Skiptum er lokið.

Hallgrímur Oddsson
Kaup á þremur íbúðum við Laugaveg voru félaginu þungbær og leiddu til gjaldþrots. Í tíð fyrri eigenda var þar viskíkjallari, sem nú hefur verið breytt.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skiptum á þrotabúi B5 ehf., sem átti fasteignir að Laugavegi 86-94 og rak skemmtistaðinn B5, er lokið. Engar eignir fundust í búinu en félagið var úrskurðað gjaldþrota í mars 2010. Kröfur námu alls tæplega 200 milljónum króna. Stærsti kröfuhafi var Landsbankinn með um 128 milljóna króna kröfu. Fasteignirnar lágu sem veð fyrir láninu og segir Flosi Hrafn Sigurðsson, skiptastjóri búsins, að þær hafi gengið til Landsbankans.

Þungbær íbúðakaup

Í kjölfar gjaldþrots B5 tók félagið Bankastræti 5 ehf. við rekstri staðarins. Flosi Hrafn segir að þeir aðilar séu ekki tengdir fyrri eigendum. Nýir eigendur tóku við rekstrinum áður en þrotabúið fór í gjaldþrot og keyptu lausamuni staðarins.

Skemmtistaðurinn B5 hefur notið nokkurra vinsælda frá opnun hans og það gilti einnig í tíð fyrri eigenda þótt það virðst ekki hafa skilað sér í góðri rekstrarafkomu. Fjallað var um gjaldþrot félagsins í Morgunblaðinu á sínum tíma og kom fram að tap af rekstri árið 2008 nam um 95 milljónum króna. Jafnframt var eigið fé B5 ehf. þá neikvætt um 120 milljónir króna. Einnig kom fram að ástæða þess að rekstrarfélagið komst í þrot voru kaup á íbúðunum þremur við Laugaveg, sem voru fjármögnuð með erlendu láni.

Stikkorð: B5 B5 ehf.