Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í gær á 14 milljarða króna kröfu þrotabús Baugs í þrotabú Kaupþings. Er þetta annað tveggja dómsmála sem stendur í vegi fyrir skiptalokum úr þrotabúi Baugs, en allar líkur eru á að skiptum ljúki á næstu mánuðum. Hitt dómsmálið sem um ræðir er gegn Banque Havilland, en bankinn var sýknaður í héraðsdómi í fyrra. Málinu var áfrýjað og verður tekið fyrir í Hæstarétti þann 8. september. Dómsmálin geta haft veruleg áhrif á hversu mikið kröfuhafar fá í sinn hlut úr þrotabúinu.

Allar líkur eru á, miðað við þá hagsmuni sem eru í spilinu, að mál þrotabúsins gegn Kaupþingi sem vannst í héraðsdómi í gær fari fyrir hæstarétt. Að sögn Erlends Gísla sonar, skiptastjóra Baugs, er þó ástæða til að ætla að málið klárist á næstu misserum. „Þessi mál fara í kæru en ekki áfrýjun og kærumál ganga hraðar fyrir sig þannig að það ætti að klárast á næstu mánuðum í hæstarétti,“ segir Erlendur.

Í þrotabúi Baugs eru 1,3 milljarðar króna en heildarkröfur í dómsmálunum nema 15 milljörðum króna.

Baugur var lýstur gjaldþrota í mars árið 2009 og námu lýstar kröfur í þrotabúið um 400 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.