Skiptum á þrotabúi EK1923 ehf., áður Eggert Kristjánsson hf. heildverzlun, lauk í dag eftir rúmlega fjögurra ára skiptameðferð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skiptastjóra þrotabúsins, Sveini Andra Sveinssyni.

Í tilkynningu Sveins Andra segir að kröfuhafar hafi á síðasta skiptafundinum samþykkt frumvarp hans að úthlutanargerð.

Sjá einnig: Skúli tapaði í Hæstarétti

„Auk þess að greiða upp búskröfur og forgangskröfur, lauk skiptum með því að almennar kröfur að fjárhæð kr. 325.886.301 greiðast að fullu. Upp í eftirstæðar kröfur, sem eru dráttarvextir og kostnaður eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta, samtals kr. 186.657.449, greiðast 59%,“ segir í tilkynningu skiptastjórans.

Þá segir í tilkynningu Sveins Andra að við upphaf gjaldþrotaskiptameðferðar EK1923 ehf. hafi 6,8 milljónir króna verið til á reikningum búsins. „Sjö dómsmálum síðar voru eignirnar orðnar 635 mkr. Mikið hefur gengið á við skipti þessa bús og mörgu tjaldað til. En það sem skiptir máli þegar upp er staðið, með góðu samstarfi skiptastjóra og lögmanna kröfuhafa, er að gjaldþrotaskiptameðferð EK1923 ehf. er sú árangursríkasta í sögu íslensks gjaldþrotaréttar.“