VBS eignasafn ehf., sem áður hét VBS fjárfestingarbanki hf., hefur verið úrskurðað gjaldþrota. VBS hefur verið í slitameðferð frá árinu 2010 en Hróbjartur Jónatansson er formaður slitastjórnar VBS.

Fyrr á árinu var greint frá því að ennþá átti eftir að útkljá ágreining um nokkrar kröfur í þrotabú VBS. „Þær kröfur eru ennþá fyrir dómi. Þetta eru kröfur sem stafa frá fyrrverandi við­ skiptavinum í eignastýringu sem gerðu skaðabótakröfur á hendur félaginu vegna mistaka starfsmanna sem þá fóru með eignastýringuna. Eftir að við vorum búin að skoða þetta í slitastjórninni þá féllumst við á skaðabótaskylduna, þ.e. við samþykktum að meðferð félagsins á fé þessa fólks hefði, að minnsta kosti að einhverju leyti, verið saknæm og ólögmæt, sem er þá grundvöllur bótaskyldu,“ segir Hróbjartur.

Ennþá standa þó uppi deilur uppi hvort kröfurnar séu almennar kröfur, eins og slitastjórnin hefur samþykkt, eða forgangskröfur eins og kröfuhafarnir krefjast. Hróbjartur segir að krafan geti hæst orðið um 600 milljónir króna, en helstu deilurnar standi þó aðallega um kröfuröðina en ekki fjárhæð krafnanna að sögn.

Gjaldþrot frekar en nauðasamningar

Eins og áður sagði var VBS úrskurðað gjaldþrota en ekki var ákveðið að leita nauðasamninga líkt og t.d. hjá stóru bönkunum. Hróbjartur segir að ekki hafi verið vilji fyrir því að leita nauðasamninga meðal stærstu kröfuhafa búsins og ákvörðun um það hafi verið tekin á kröfuhafafundi í júlí sl. „Enda engin framtíð í því þar sem það er enginn rekstur fyrirhugaður, það var bara tekin ákvörðun um að setja þetta í þrot, en það var gert í september.“

Hróbjartur segir að lýstar kröfur í búið nemi alls um 50 milljörðum króna og endurheimtur verði á bilinu 13-15%, en kröfuhafar hafi þegar fengið stóra greiðslu. Með­ al ástæðna fyrir því að ákveðið var að fara í gjaldþrot segir Hróbjartur vera lagabreytingar sem gerðar voru árið 2009 og heimiluðu fjármálafyrirtækjum í slitameðferð einungis að greiða forgangskröfur, en ekki t.d. upp í almennar kröfur. „Það var því nauðsynlegt að fara í formlegt gjaldþrot til að mega greiða að hluta upp í úthlutaðar kröfur.“ Hróbjartur segir að þegar hafi verið greidd um 12% upp í kröfurnar í nóvember sl. en endurheimtur geti endað í 15%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .