Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding, forstjóri Glitnis, skiptust á yfir 400 tölvupóstum á tímabilinu sem til rannsóknar var í svokölluðu Aurum-máli sérstaks sakóknara, frá því síðla árs 2007 og fram undir mitt ár 2008. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, greindi frá þessu við fyrirtöku málsins í gær, að sögn Fréttablaðsins.

Eins og VB.is greindi frá í gær hefur Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, krafist þess að fá afrit af öllum tölvupóstsamskiptum skjólstæðings síns og Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis sem varða lánveitingu bankans til félagsins FS 38 vegna kaupa þess á fjórðungshlut í bresku skartgripakeðjunni Aurum Holding. Lánið var veitt í júlí árið 2008 og hljóðaði upp á sex milljarða króna. Fjórðungshluturinn var í eigu fjárfestingarfélagsins Fons, félags Pálma Haraldssonar.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur hafnað því að veita Gesti afrit af gögnunum en sagst tilbúinn til að veita honum aðstöðu til að skoða þau.