*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 19. janúar 2020 15:55

Skipulagið götótt

Einn helsti sérfræðingur Evrópu í peningaþvætti segir skipulagið í kringum aðgerðir gegn peningaþvætti á alþjóðavísu vera götótt.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Á sl. föstudag fór fram fundur um peningaþvætti, en viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stóð fyrir fundinum í samvinnu við Copenhagen Business School, Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Iceland SIF. Fyrirlesari fundarins var dr. Tom Kirchmaier, sem er einn helsti sérfræðingur Evrópu í peningaþvætti og hvítflibbaglæpum, en hann er prófessor við Copenhagen Business School  og LSE háskólann í London. Þar að auki starfar hann með yfirvöldum og eftirlitsaðilum víða um Evrópu á sviði peningaþvættis, með það að markmiði að hanna skipulag og ferla sem geta komið auga á hvar og hvernig peningaþvætti er stundað. 

„Ég mun að mestu leyti fjalla um peningaþvætti, en að mínu mati er það kerfi sem notað er til að koma auga á peningaþvætti ekki að þjóna sínum tilgangi nægilega vel. Þá mun ég einnig fara yfir þá annmarka sem eru til staðar innan stofnanaumhverfisins hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti. Skipulagið í kringum aðgerðir gegn peningaþvætti er á alþjóðavísu ansi götótt. Norðurlöndin eru tiltölulega smá í alþjóðlegum samanburði og virðast liggja vel við höggi þegar kemur að slíkum glæpum. Ég mun því að lokum varpa ljósi á þá valkosti sem eru í boði fyrir Ísland, Norðurlöndin og í raun alla heimsbyggðina til að bæta úr þessu," sagði Tom í samtali við Viðskiptablaðið, nokkrum dögum áður en viðburðurinn fór fram.

Dýrt skipulag ekki skilað tilætluðum árangri

Eftirlitsaðilar víða um heim hafa lengi glímt við og reynt að uppræta peningaþvætti. Hvers vegna hefur ekki gengið betur að kljást við peningaþvætti en raun ber vitni?

„Flestar ef ekki allar þjóðir hafa lengi glímt við peningaþvætti og eru slíkir glæpir dýrkeyptir fyrir samfélagið. Það hefur verið dýrt að koma upp því skipulagi sem stofnanir víða um heim hafa komið sér upp til að sporna við peningaþvætti. Þetta skipulag hefur þó ekki skilað tilætluðum árangri. Alltof mikið af vinnunni er unnið handvirkt og notast við her lögfræðinga og ráðgjafa. Auk þess eru gögnin og ferlarnir, sem notast er við í þessari vinnu, ófullnægjandi. Ef við viljum sem samfélag koma í veg fyrir peningaþvætti, er það algjört lykilatriði til framtíðar að við söfnum og greinum gögn hraðar og á hagkvæmari máta en nú er gert.

Þá hafa pólitískir leiðtogar í einhverjum löndum takmarkaðan áhuga á að stemma stigu við peningaþvætti. Á meðan halda yfirvöld áfram að rannsaka þessi mál á gamla mátann og því eiga sér aldrei stað neinar framfarir við þessar rannsóknir. Með núverandi aðferðum er einungis náð að koma auga á brotabrot af því peningaþvætti sem er að eiga sér stað og eru þá yfirleitt smáglæpamenn sem beita ófáguðum aðferðum þeir sem staðnir eru að verki."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér