Starfsmenn Ueno eru í dag yfir 65 og starfstövar félagsins eru þrjár, auk stofunnar á Hafnartorgi, í San Francisco, Los Angeles og New York. Spurður hvernig lítill vísir hafi á aðeins fimm árum orðið að fyrirtæki sem veltir á þriðja milljarð króna segir Haraldur að ekkert eitt hafi ráðið úrslitum heldur séu ástæðurnar margar og sumar tilviljanir.

„Ég veit það ekki, er stutta svarið, en kannski er það einmitt málið. Ég vissi ekki hvað ég var að gera og stundum er það besta leiðin til þess að læra eitthvað – bara demba sér blint út í djúpu laugina. Auðvitað hefur þetta verið rosalega mikil vinna og ef ég hefði vitað fyrirfram hvað ég væri að fara út í er ég ekki viss um að ég hefði gert þetta svona. En það kom  í ljós að eftir öll þessi ár sem verktaki í hjáverkum hafði ég lært ýmislegt.

Ég var kannski ekki sérfræðingur á öllum sviðum en ég hafði þekkingu og skilning á flestu því sem viðkemur starfinu. Bakgrunnurinn úr viðskiptafræði og hagfræði hefur líka komið að góðum notum og eins heimspekin sem gagnast manni alltaf. Þá var ég líka kominn með dágóða reynslu í að vinna með ólíku fólki úr ólíkum áttum og eiga í samskiptum við litla sem og stóra kúnna. Ég hafði í gegnum árin aflað mér nægilega þekkingu og reynslu til þess að láta þetta ganga upp.

Ég segi samt ekki að þetta hafi gengið þrautarlaust, ekki bara hefur þetta kostað mikla vinnu, ég hef líka líka þurft að stíga oft og langt út fyrir þægindaramman. Ég hafði t.d. vanið mig á að vinna einn þannig að þegar þetta byrjaði þá fannst mér stundum óþægilegt að vera innan um hóp af fólki. En auðvitað er ekki hægt að skapa neitt stærra en mann sjálfan öðruvísi en með öðru fólki og ég hef því þurft að endurskoða ýmislegt i viðhorfum mínum og samskiptum. Það er með þetta eins og svo margt að maður græðir meira á því sem er erfitt og nú hef ég bæði meira gaman af því að vera með fólki og er orðinn betri í því.

Þetta skiptir máli, ekki bara fyrir mig persónulega heldur líka fyrir reksturinn, langflest vandamálin sem ég glími við í vinnunni tengjast fólki en ekki verkefnunum, tækjabúnaði eða faglegum ágreiningi. Næstum alltaf er um samskiptavanda að ræða, misskilning eða ónærgætni og stundum eitthvað verra. Fólk er versta fólkið og reyndar líka það besta,” segir Haraldur og hlær.

Mikill vöxtur Ueno til þessa hefur verið sjálfsprottinn og orðið að veruleika án þess að vöxtur hafi verið sérstakt markmið. Það er ekki fyrr en á síðasta ári sem stærð fyrirtækisins kallaði á meira skipulag og að stefnan væri mörkuð til framtíðar. „Árið  2019 er það fyrsta í sögu fyrirtækisins sem við bjuggum til „budget“ og þetta er því í fyrsta skipti sem við getum raunverulega sett okkur markmið. Það er fyrst núna sem ég get sagt með þokkalegri vissu hvar við viljum og ætlum að vera stödd eftir eitt ár.

Þetta er nýr veruleiki sem hefur marga kosti en hefur líka margar áskoranir í för með sér. Hingað til hefur það til dæmis verið ákveðinn kostur að vera óbundinn af stefnu og markmiðum. Fyrir vikið höfum við haft meiri sveigjanleika og verið opnari fyrir tækifærum því þeim sem einblína of mikið á markmið er hætt við að sjá ekki tækifærin sem liggja fyrir utan stefnuna að markinu.

Skipulagning og stefnumörkun fyrirtækja er jafnvægislist og kallar á að maður hafi tvær algjörlega ósamrýmanlegar hugmyndir en trúi þeim báðum á sama tíma. Ég held að það sé lykillinn að því að koma í veg fyrir stöðnun og tryggja að fyrirtækið geti aðlagað sig að síbreytilegu umhverfi. Maður er að reyna að skapa eitthvað sem er varanlegt og stöðugt en til þess verður það líka að geta tekið breytingum og verið sveigjanlegt.

Þetta er spennandi verkefni og margt nýtt fyrir mér í þessu. Hingað til hef ég getað treyst á sjálfan mig, innsæið og hæfileikann til þess að leysa úr vandamálum jafnóðum og þau koma upp. Núna þarf ég að vinna með fólki, sjá vandamálin fyrir og leysa þau í sameiningu. Skipulag og markmið eru jafn lífsnauðsynleg og hjálpleg eins og þau eru gagnslaus og hættuleg. Eins og allt sem við kemur fólki þá er verkefnið flókið. En góð samskipti og tengsl hjálpa vissulega,“ segir Haraldur og brosir.