Á aðalfundi Almenna Lífeyrissjóðsins kom fram að breyting sem gerð var á fyrirkomulagi samtryggingasjóðs Almenna lífeyrissjóðsins árið 2006 hefur reynst vel í því mikla umróti sem verið hefur á fjármálamörkuðum undanfarna mánuði.

Þá var tekin upp mismunandi fjárfestingarstefna fyrir sjóðfélaga annars vegar og lífeyrisþega hins vegar en hagsmunir þessara tveggja hópa geta verið ólíkir þegar kemur að ávöxtun lífeyrissparnaðar, segir í tilkynningu frá sjóðnum en aðalfund hans var haldinn í dag.

„Sjóðfélagar sem eru að safna réttindum til síðari tíma notkunar vilja háa ávöxtun og þola sveiflur í ávöxtun framan af starfsævi. Þeir sem byrjaðir eru að fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum leggja hins vegar áherslu á stöðuga ávöxtun sem lækkar ekki vegna tímabundinna sveiflna á fjármálamörkuðum,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.

Þá segir að breytingin frá 2006 sameini þessi ólíku sjónarmið en þá var stigið það skref að ávaxta eftirlaunasparnað samtryggingarsjóðsins eins og séreignasjóðina samkvæmt Ævileiðinni þar sem ávöxtunarleiðir taka mið af aldri sjóðfélaga.

„Útreikningar sýna að ávöxtun samkvæmt Ævileiðinni hefði skilað hærri ávöxtun og minna flökti á liðnum árum en verðbréfasafn með fasta fjárfestingarstefnu.“

Árið 2006 var samtryggingasjóðnum jafnframt skipt í þrjár deildir.

Tryggingadeild sem greiðir örorku, maka- og barnalífeyri, eftirlaunadeild sem ávaxtar fé sjóðfélaga til að tryggja þeim ellilífeyrisgreiðslur til æviloka og lífeyrisdeild sem greiðir ellilífeyri frá 60-70 ára aldri til æviloka.

„Með mismunandi fjárfestingastefnu fyrir þá sem eru að greiða í sjóðinn og hinna sem eru byrjaðir að fá greiddan lífeyri úr sjóðnum minnka líkur á að skerða þurfi réttindi lífeyrisþega vegna óhagstæðrar ávöxtunar enda verður verðbréfasafn lífeyrisdeildar að mestu í skuldabréfum. Breytt fyrirkomulag er því til þess fallið að auka samheldni innan sjóðsins og koma í veg fyrir deilur milli ólíkra aldurshópa,“ segir í tilkynningunni.