Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins. Jóhanna Helga Viðarsdóttir verður framkvæmdastjóri félagsins í stað Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur sem verður stjórnarformaður félagsins. Í stjórninni með Ingibjörgu verður Helgi Magnússon, sem keypti í byrjun júní 50% hlut í Fréttablaðinu Skömmu fyrir kaupin var Davíð Stefánsson ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins.

Einnig var greint frá því í dag að Gústaf Bjarnason verði auglýsingastjóri félagsins og Kristín Björg Árnadóttir verði fjármálastjóri félagsins. Samkvæmt upplýsingum á vef Fréttablaðsins hefur Jóhanna Helga Viðarsdóttir starfað hjá Torgi og áður 365 miðlum frá árinu 2016. Á árunum 2014-16 veitti hún forstöðu verkefnastofu hjá Reiknistofu bankanna. Áður var hún hjá Símanum eða frá árinu 2004 í hinum ýmsu störfum, en lengst af sem verkefnastjóri. Jóhanna lauk MBA-gráðu við Háskóla Íslands vorið 2017 og diploma í verkefnastjórnun og leiðtogahæfni frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2010.

Kristín Björg hefur undanfarin ár starfað við ýmis fjármálatengd verkefni, nú síðast hjá Skaganum 3X á Akranesi. Þar áður starfaði hún á fjármálasviði endurskoðunarfélagsins Deloitte og sem fjármálastjóri hjá Fiskmarkaði Íslands. Kristín Björg útskrifaðist sem markaðshagfræðingur árið 2004 frá Vitus Bering í Danmörku.

Gústaf hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2015 sem verkefnastjóri á auglýsingadeild Fréttablaðsins. Á árunum 2006-2012 starfaði hann á söludeild Bylgjunnar hjá 365 miðlum ehf. með stuttu hléi á meðan hann var búsettur erlendis og sinnti öðrum sjálfstæðum verkefnum. Gústaf, sem útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004, hefur víðtæka þekkingu og reynslu af auglýsinga- og markaðsmálum.

Hlutafé Torgs var aukið um 300 milljónir í lok síðasta árs líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku . Það er annað árið í röð sem hlutafé er aukið en í árslok 2017 var það aukið um 150 milljónir. Fyrri hlutafjárhækkunin var greidd með eignum sem 365 miðlar hf., eigandi Torgs, lögðu í félagið.