Eimskip hefur ákveðið að gera nokkrar breytingar á skipuriti félagsins. Verða breytingar gerðar á rekstrarsviði og í sölu og þjónustu, þar sem tvö ný svið munu koma í stað þeirra eldri sem bera munu heitin skiparekstrarsvið og flutningasvið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Framkvæmdastjóri skiparekstrarsviðs verður Ásbjörn Skúlason, sem verið hefur framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, og mun sviðið sjá um rekstur skipaflota félagsins. Sviðið mun einnig sjá um leigu, kaup og sölu skipa og smíði á nýjum skipum. Í tengslum við breytingarnar mun Jóhann Steinar Steinarsson taka við stöðu forstöðumanns og mun hann verða staðsettur í Hamborg, Þýskalandi.

Framkvæmdastjóri flutningasviðs verður Matthías Matthíasson sem verið hefur framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Meginverkefni sviðsins eru eins og áður sala og þjónusta tengd sjóflutningum til og frá Íslandi, en að auki bætast við verkefni tengd flutningastýringu og sölu stórflutninga.

Forstöðumaður stórflutningadeildar verður Ingvar Sigurðsson og mun deildin sjá um sölu á stórflutningum. Þá verður Jóhann Helgi Sigurðsson forstöðumaður flutningastýringar og mun deildin annast alla flutningastýringu Eimskips á Norður-Atlantshafi.