Glitnir tilkynnti í dag um breytingar á skipulagi bankans, segir í tilkynningu. Jafnframt var tilkynnt um opnun skrifstofu bankans í New York til að styðja við starfsemi bankans í Norður-Ameríku. Skipulagsbreytingunum er ætlað að efla starfsemi bankans enn frekar á Íslandi og aðlaga skipulagið að þeim breytingum sem hafa orðið á bankanum með hröðum vexti á erlendum mörkuðum.

Nýtt skipulag Glitnis greinist í þrennt; þjónustusvið, landsvæði og stoðsvið. Þau þjónustusvið sem um ræðir eru Markaðsviðskipti, Fjárfestingabankasvið, Fyrirtækjasvið og Eignastýringasvið. Landfræðilega mun starfsemin greinast í fjögur landsvæði: Ísland, Norðurlönd, Evrópu og Alþjóðasvið. Stoðsviðin verða eftir sem áður þrjú: Fjármálasvið, Rekstrarsvið og Þróunarsvið.

Þrír nýir framkvæmdastjórar koma inn í framkvæmdastjórn: Birna Einarsdóttir verður framkvæmdastjóri Þróunarsviðs bankans, Helgi Anton Eiríksson verður framkvæmdastjóri Fjárfestingabankasviðs og Magnús Bjarnason verður framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs.

Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis: "Glitnir hefur eflst mjög síðastliðin ár og vaxið mikið, hvort sem litið er til landfræðilegrar dreifingar, fjölbreytni í hópi viðskiptavina, vöruframboðs eða fjárhagslegrar afkomu. Breytingum á skipulagi bankans er ætlað að endurspegla starfsemi bankans eins og hún er í dag og búa hann undir frekari vöxt á alþjóðlegum mörkuðum. Við bætum nú við einu þjónustusviði sem er Eignastýringasvið (e. Investment Management). Jafnframt viljum við með breytingunum efla starfsemina á Íslandi enn frekar með því að skipa sérstakan forstjóra yfir Ísland og mun Jón Diðrik Jónsson verða forstjóri Glitnis á Íslandi. "

Bjarni segir markmið skipulagsbreytinganna að tryggja markvissa og arðsama samþættingu allra rekstrareininga bankans og undirbúa jarðveginn fyrir frekari vöxt. "Frá árinu 2004 höfum við keypt sjö félög í Noregi og Svíþjóð auk þess að opna skrifstofur í Danmörku, Kanada og Kína en fyrir rákum við banka í Lúxemborg og skrifstofu í Bretlandi. Í dag tilkynntum við einnig um opnun skrifstofu Glitnis í New York en skrifstofunni þar er ætlað að efla starfsemi bankans í Norður-Ameríku, einkum á þeim sviðum þar sem bankinn hefur sérhæft sig, á sviði endurnýtanlegrar orku, einkum jarðvarma og í matvælaiðnaðnum, einkum sjávarútvegi."

Haukur Oddsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs á Íslandi mun koma til starfa á skrifstofu forstjóra þar sem hann mun starfa að vexti félagsins og samþættingu eininga.