Skipulag akademískra deilda Háskólans í Reykjavík mun breytast frá og með 1. mars næstkomandi. Helstu breytingarnar eru þær að þrjú fagsvið verða gerð að sérstökum deildum innan háskólans, þ.e. íþróttafræði, sálfræði og iðn- og tæknifræði og skilgreind verða tvö yfirsvið innan háskólans. Háskólinn greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Ragnhildur Helgadóttir, núverandi forseti lagadeildar hefur verið ráðin í stöðu sviðsforseta yfir viðskiptadeild, lagadeild, sálfræðideild og íþróttafræðideild. Gísli Hjálmtýsson, forseti tölvunarfræðideildar mun taka við stöðu sviðsforseta yfir verkfræðideild, tölvunarfræðideild og iðn- og tæknifræðideild. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir verður forseti sálfræðideildar, Hafrún Kristjánsdóttir verður forseti íþróttafræðideildar og Hera Grímsdóttir verður forseti iðn- og tæknifræðideildar. Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á skipulag náms innan háskólans.

Samkvæmt tilkynningunni er meginmarkmið breytinganna að efla enn frekar kennslu, rannsóknir og nýsköpun á þeim fjölbreyttu sviðum sem HR starfar og að gera háskólanum sem best kleift að bregðast við nýjum tækifærum og breyttum kröfum vegna yfirstandandi tæknibyltingar. Þannig geti HR enn betur sinnt sínu hlutverki, að efla samkeppnishæfni og lífsgæði nemenda sinna, atvinnulífsins og samfélagsins.

Fjölgun deilda endurspegli um leið þá þróun sem orðið hefur í Háskólanum í Reykjavík síðustu ár, en mikil aðsókn hafo verið í nám í íþróttafræði og sálfræði. Í iðn- og tæknifræðideild verði lögð áhersla á að efla og kynna háskólanám að loknu iðnnámi, en Háskólinn í Reykjavík hefur boðið upp á slíkt nám allt frá sameiningu við Tækniháskóla Íslands árið 2005.