Unnið er að því skipta Icelandic Services (IS) dótturfyrirtæki Icelandic Group upp í tvö sjálfstæð félög að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Annars vegar er um að ræða Icelandic Umbúðir, sem hingað til hefur verið rekstrareining innan IS og hins vegar félag um aðra þjónustu sem IS hefur hingað til veitt.

Icelandic Services gegnir stóru hlutverki í aðfangakeðju Icelandic Group. Fyrirtækið tekur þátt í innri þjónustu margra samstæðufélaga svo sem á sviði gæðamála, flutningaþjónustu, birgða, skjalagerðar auk þess að sjá um rekstur vefgáttar (Iceport). Starfsmenn IS eru 20 þar af eru 6 á skrifstofu félagsins í Rotterdam. Framkvæmdastjóri IS er Valdimar Óskarsson. Valdimar er fæddur árið 1967 og hefur starfað hjá Icelandic Group frá árinu 1999 sem framkvæmdastjóri Icelandic Logistics í Rotterdam. Á árinu 1993 ? 1999 starfaði Valdimar hjá Samskip, lengst af sem sölustjóri í Rotterdam. Á árunum 1991 til 1993 starfaði Valdimar við flutningsmál hjá Jöklum sem þá var dótturfyrirtæki Icelandic Group. Valdimar er kvæntur Lovísu B. Traustadóttur og eiga þau þrjú börn.

IU mun heyra beint undir móðurfélagið Icelandic Group hf., en að öðru leyti verður rekstur þess óbreyttur. Starfsmenn IU eru 7. Framkvæmdastjóri IU verður Einar Már Guðmundsson. Einar Már er fæddur 1972 og hefur starfað hjá umbúðadeild Icelandic Group frá árinu 1997 þar af sem rekstrarstjóri frá árinu 1999. Hann er Sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Einar Már er kvæntur Katrínu Melstað og eiga þau tvær dætur