Í fréttatilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu segir að skipulagsbreytingar verði gerðar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Eftir breytingarnar verður yfirstjórn tollgæsluverkefna alfarið á forræði fjármálaráðherra og yfirstjórn öryggisverkefna vegna flugverndar á Keflavíkurflugvelli á forræði samgönguráðherra. Löggæsla og landamæragæsla verður áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í skipulagsbreytingunum felst að ekki verður öll yfirstjórn löggæslu-, tollgæslu- og öryggisgæslumála á Keflavíkurflugvelli í höndum lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Tilgangur breytinganna er að tryggja skýra verkaskiptingu, valdsvið og ábyrgð við stjórnsýslulega framkvæmd á Keflavíkurflugvelli og Suðurnesjum segir í fréttatilkynningunni. Þar segir enn fremur að forræði á sviði stjórnsýslu og samfélagsþróun á Suðurnesjum verði að haldast í hendur til að tryggja hátt þjónustustig. Skipulagsbreytingarnar miði að því að styrkja daglega löggæslu í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum jafnframt því að styrkja tollgæslu og samhæfða framkvæmd flugverndarmála.

Nú fer í hönd undirbúningsvinna vegna breytinganna og er stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi frá 1. júlí 2008. Engin röskun verður á starfsemi Keflavíkurflugvallar og löggæslu á Suðurnesjum og  engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar.