Um nýliðin áramót varð sú breyting á skipulagi Prentsmiðjunnar Odda hf. og dótturfélaga hennar að skilið var á milli eignahalds og eignaumsýslu samstæðunnar annars vegar og framleiðslu- og verslunarstarfsemi hins vegar segir í tilkynningu félagsins.

Eignir hafa verið færðar yfir í nýtt félag Kvos hf. sem verður móðurfélag samstæðunnar, en framleiðsla prentgripa og verslunarrekstur verður í sjálfstæðum afkomueiningum. Þessar breytingar hafa engin áhrif á eignarhald samstæðunnar segir í tilkynningu félagsins en forstjóri Kvosar hf. er Þorgeir Baldursson sem áður var forstjóri Prentsmiðjunnar Odda hf.

Unnið hefur verið að undirbúningi þessara breytinga um nokkurt skeið. Um mitt síðasta ár var nýtt stjórnskipulag kynnt fyrir starfsmönnum og hefur það síðan verið að taka gildi í áföngum. Markmiðið með því að skilja á milli móðurfélags og afkomueininga er að samhæfa betur rekstur einstakra eininga og að auka þjónustu við viðskiptavini enn frekar með meiri sveigjanleika og hagræðingu. Til að skerpa áherslur hefur ólíkum rekstrareiningum í sumum tilvikum verið skipt upp en í öðrum tilfellum hafa skyldar einingar verið sameinaðar segir í tilkynningunni.

Nú þegar skipulagsbreytingin hefur að fullu tekið gildi, er eignarhald samstæðunnar í Kvos, sala á prentverki og öðrum miðlunarlausnum í Odda og Gutenberg, framleiðsla prentgripa í OPM og sala og innflutningur á skrifstofuvörum hjá Odda skrifstofu-vörum. Þá hefur öll erlend starfsemi og útrásarverkefni verið sameinuð á einu sviði.

Með skipulagsbreytingunni er lögð áhersla á að styrkja tengslin við viðskiptavini samstæðunnar. Sömu tengiliðir munu annast samskiptin við viðskiptavini og áður. Að mati stjórnenda Kvosar skapar uppstokkunin sem nú hefur verið gerð fjölmörg ný sóknarfæri sem fyrirtæki samstæðunnar munu kappkosta að nýta sem best. Þess er vænst að Prentsmiðjan Oddi og Gutenberg, sem lagt hafa áherslu á góða þjónustu byggða á persónulegum tengslum og þekkingu á þörfum viðskiptavina, geti styrkt stöðu sína enn frekar sem leiðandi fyrirtæki í íslenskum prentiðnaði. Innflutningur og sala á skrifstofuvörum á vegum Odda skrifstofuvara, sem hafa verið mjög vaxandi þættir í starfsemi samstæðunnar undanfarin ár verða efldir enn frekar.

Allt frá því að söluskrifstofa Odda var opnuð í New York í Bandaríkjunum árið 1989, undir nafninu OPC (Oddi Printing Corp.), hafa erlend umsvif samstæðunnar farið vaxandi. Í rúman áratug hefur verið rekin prentstarfsemi í Póllandi, undir nafninu Oddi Pólland og á síðasta ári var umbúðafyrirtækið Oddi USA stofnað í Bandaríkjunum. Með því að skilja erlend umsvif og útrásarverkefni frá öðrum þáttum í rekstrinum og sameina á einu sviði gefst aukið svigrúm til að efla þennan þátt starfseminnar og búa hann undir að takast á við fleiri og enn stærri verkefni erlendis.

Fjögur tekjusvið

Starfsemi Kvosar skiptist í fjögur tekjusvið og eitt stoðsvið. Tekjusviðin eru miðlunarsvið, skrifstofuvörusvið, viðskiptaþróunarsvið og svið erlendrar starfsemi en fjármálasvið og innri þjónusta er stoðsvið. Undir miðlunarsvið falla Prentsmiðjan Oddi, Gutenberg og OPM auk tækni- og þróunardeildar. Baldur Þorgeirsson er framkvæmdastjóri sviðsins. Undir skrifstofuvörusvið fellur Oddi skrifstofuvörur ehf. sem sér um innkaup og sölu á skrifstofu- og tæknivörum í gegnum vörulista, heildsölu og verslanir. Skrifstofuvörusviðið heyrir beint undir Þorgeir Baldursson forstjóra Kvosar. Undir viðskiptaþróunarsviði eru útgáfufélagið Fróði og önnur þróunarverkefni sem unnið er að á hverjum tíma. Páll Gíslason er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs og stýrir einnig erlendri starfsemi Kvosar. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs og innri þjónustu er Elías B. Guðmundsson.

Stjórnendur dótturfélaga Kvosar hf. eru Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Prentsmiðjunnar Odda ehf., Ólöf María Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Gutenbergs ehf., Karl Brynjólfsson framkvæmdastjóri Odda skrifstofuvara ehf., Sigurður M. Harðarson framkvæmdastjóri OPM ehf., Bjarni Lúðvíksson framkvæmdastjóri Kassagerðarinnar ehf., Þórir Hrafnsson framkvæmdastjóri Fróða ehf. og Kjartan Pálsson framkvæmdastjóri Miðaprentunar ehf.