Nú um áramót eiga sér stað töluverðar breytingar á skipulagi hjá ríkinu. Eins eru tíðar mannabreytingar framundan. Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar frá því í sumar er kveðið á um tilfærslur verkefna innan stjórnarráðsins. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Veigamestu breytingarnar eru sameining sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta í eitt, færsla sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis og hluta af málefnum tryggingamála til félagsmálaráðuneytis.

Þá flytjast ferðamál frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og til verður Matvælastofnun úr Landbúnaðarstofnun og matvælasviðum Umhverfisstofnunar og Fiskistofu.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur færast frá utanríkisráðuneytinu til samgönguráðuneytis og er stefnt að því að flugvöllurinn og flugstöðin verði í eigu eins hlutafélags í vörslu samgönguráðherra.

Mannabreytingar í byrjun árs

Í dag verður Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari en hann hefur verið fangelsismálastjóri, við því starfi tekur Páll E. Winkel. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, verður ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Þá verður í dag skipað í stöður orkumálastjóra, sem Þorkell Helgason hefur gegnt um árabil, og ferðamálastjóra, sem Magnús Oddsson hefur gegnt, sömuleiðis um langt árabil. 9 hafa sótt um starf orkumálastjóra og 50 um starf ferðamálastjóra. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, skipar í stöðurnar.

Loks hafa nokkur stjórnunarstörf verið auglýst og umsóknarfrestur varir enn. Sækja má um starf hagstofustjóra og forstjóra Umhverfisstofnunar til 10. janúar og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til 15. janúar. Þá má geta þess að Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, hefur tilkynnt ráðherra að hann hyggist hætta störfum, þegar ráðningartími hans rennur út þann 1. mars, en Jón hefur gegnt starfinu í fimm ár og starfað hjá Vegagerðinni í 43 ár, segir á fréttavef RÚV.