Landsbankinn mun tilkynna síðar í dag um fyrirhugaðar uppsagnir og skipulagsbreytingar innan bankans samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Breytingar verða gerðar á yfirstjórn bankans auk annarra skipulagsbreytinga, til að mynda til að styrkja tekjusvið bankans.

„Um þetta er það að segja að síðdegis í dag munum við kynna ákveðnar breytingar í bankanum. Á meðan þær hafa ekki verið kynntar í heild sinni fyrir starfsfólki þá mun ég ekki tjá mig um það við aðra,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans aðspurður um fyrirhugaðar breytingar.

Legið hefur fyrir að skipulagsbreytingar yrðu gerðar á yfirstjórn bankans eftir að Frans Páll Sigurðsson,framkvæmdastjóri Fjármála hjá bankanum lét af störfum í ágúst og Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Markaða og fjárstýringar tók við störfum hans.