Birgir Hlynur Sigurðsson skipulagsstjóri borgarinnar hefur óskað eftir lausn frá störfum. Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt að ráða Ólöfu Örvarsdóttur aðstoðarskipulagsstjóra í hans stað. Birgi var um leið þökkuð afar góð og mikilvæg störf í þágu borgarinnar. Ekki kom fram á fundinum hvers vegna hann hefur kosið að hætta.

Borgarfulltrúi framsóknarmanna, Óskar Bergsson, sagði hins vegar í bókun sinni af þessu tilefni að það væri áhyggjuefni hversu margir meðal æðstu yfirmanna borgarinnar hefðu látið af störfum að undanförnu. "Frá árinu 2002 hafa verið starfandi sex borgarstjórar, fjórir skipulagsstjórar, þrír sviðsstjórar framkvæmdasviðs, fjórir borgarlögmenn og jþrír fjármálastjórar," sagði hann í bókun sinni.