Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að 580 kW virkjun í landi Gríshóls í Helgafellssveit á Snæfellsnesi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það er fyrirtækið Grís-afl sem stendur að framkvæmdinni en um er að ræða rennslisvirkjun í landi Gríshóls. Stöðvarhús verður staðsett við Bakkaá en þar er áætlað að nýta rennsli úr lindum frá Giljaá, Lindá og Drangá allt að 300 l/sek, en heildarrennsli við stöðvarhús er um 500 l/sek, og er áætlað afl virkjunarinnar um 580 kW.

Umframvatn mun renna áfram í náttúrulegum farvegum. Lindárnar verða stíflaðar með steinsteyptum veggjum sem verða samtals um 30 m að lengd. Niðurgrafinni aðrennslispípu verður komið fyrir við inntak ánna og liggur hún úr 350 m y.s frá inntaki Giljaár rúmlega 2 km leið að stöðvarhúsi við Bakkaá í um 114 m y.s. með viðkomu í inntaki Lindár og Drangár.
Gert er ráð fyrir að samanlögð stærð tjarna við inntökin verði um 150 m2 og verða þær hafðar nægjanlega stórar þannig að tryggja megi frostfrítt rennsli um inntökin. Stöðvarhús verður allt að 90 m2 og að hámarki 8m hátt yfir gólffleti. Lagður verður um 1120 m langur aðkomuvegur
að stöðvarhúsi frá gamla þjóðveginum.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 25. nóvember 2005