Samkeppniseftirlitið hefur í um eitt ár hið minnsta undirbúið húsleitir sem ráðist var í hjá Eimskipi, Samskipum og dótturfélögum þeirra í gærmorgun. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins, sem greinir frá málinu í dag.

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafa haft samband við fulltrúa samkeppnisaðila í geiranum til að afla gagna og upplýsinga um meint brot fyrirtækjanna.

Eins og fram kom á VB.is í gær beinist grunur að ólöglegu samráði fyrirtækjanna, en í 10. og 11. grein samkeppnislaga er kveðið á um bann við slíku.