Skip suður kóreska skipafélagsins Hanjin Shipping hefur verið meinaður aðgangur að höfnum víða um heim vegna ótta hafnaryfirvalda að fyrirtækið muni ekki geta greitt hafnargjöld.

Hefur fyrirtækið nú óskað eftir gjaldþrotameðferð í kjölfar þess að ekki tókst að afla frekara fjármagns til þessa skuldsetta fyrirtækis. Ætlar fyrirtækið að sækja um gjaldþrotameðferð í 40 löndum.

Skuldar 5,4 milljarða dali

Skipafélagið er sjöunda stærsta gámaflutnignafyrirtæki í heiminum, en það hefur ekki skilað hagnaði í fjögur af síðustu fimm árum.

Hagnaður minnkaði mikið í skipaflutningaiðnaðinum í kjölfar efnahagsslaka síðustu ára. Aukin samkeppni og lækkandi verð leiddu til þess að lánadrottnar hættu að framlengja í lánum þess en skuldir þess nema um 5,4 milljörðum Bandaríkjadala.

Í gjaldþrotameðferðinni getur fyrirtækið þá endurskipulagt skuldir þess og hindrað að eignir séu teknar eignarnámi.