Val Donald Trump á starfsmannastjóra fyrir Hvíta húsið þegar hann tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar næstkomandi hefur verið hrósað, meðal annars úr röðum starfsliðs Obama forseta.

Donald Trump er byrjaður að tilkynna um hverja hann velur í starfslið sitt og hefur val hans á Reince Priebus sem starfsmannastjóra verið hrósað en val hans á Stephen K. Bannon sem aðalráðgjafa hefur hlotið mikla gagnrýni.

Valið á Priebus hrósað

Dylan Axelrod, ráðgjafi Obama forseta og öldungardeildarþingmaðurinn Lindsey Graham frá Norður Karólínu hafa báðir hrósað Trump fyrir valið á Priebus.

Priebus hefur verið stjórnarformaður Repúblikanaflokksins en með skipun hans hefur Trump fengið í lið sitt innanbúðarmann í Washington sem talinn er vera almenn sátt um meðal helstu fylkinga í flokknum. Skipun hans er merki um að Trump vilji vinna með ráðandi öflum í höfuðborginni, en hann lagði mikið upp úr að gagnrýna þau í kosningabaráttu sinni.

Bannon sagður hallur undir alt-right

Hins vegar sendi skipun hans á Stephen K. Bannon sem aðalráðgjafa sínum þveröfug skilaboð, en Bannon hefur verið sérlega gagnrýninn á ýmsa innan flokksins, þar á meðal Paul Ryan, leiðtoga meirihluta Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Skipun hans á Bannon hlaut mikla gagnrýni en hann er talinn af mörgum vera hallur undir kynþáttahyggju og svokallaða alt-right hreyfingu.

Bannon var stjórnarformaður Breitbart News, sem verið hefur mjög gagnrýnin á ráðandi öfl á vesturlöndum, áður en Trump skipaði hann sem kosningastjóra sinn í ágúst, samhliða aukinni áherslu hans á gagnrýni á hina svokölluðu þjóðfélagselítu í landinu.

Keppinautar sem þurfa að vinna saman en eiga að takast á

Í yfirlýsingu kemur fram að Bannon myndi heyra beint undir Trump, en ekki Priebus sem virðist benda til þess að þeir munu þurfa báðir að samþykkja ákvarðanir.

Virðist skipunin koma heim og saman við stjórnunarstíl Trump í viðskiptalífinu og í kosningabaráttunni, sem byggir á því að búa til tvær valdablokkir sem tækjust á um áhrif og eyru hans.