Sprotafyrirtækið CrankWheel vann nýlega söluræðukeppni á ráðstefnunni SaaStock í Dyflinni. Fyrirtækið selur skjádeililausn sem er mun aðgengilegri en hefðbundin veffundarkerfi, og er í dag með hátt í 50 þúsund notendur í öllum heimsálfum.

CrankWheel var stofnað snemma árs 2015 af æskuvinunum Jóa Sigurðssyni og Þorgils Sigvaldasyni. Hugmyndin fæddist þegar félagarnir fóru að ræða um sölumennsku, sem Þorgils hafði þá starfað við lengi, og Jói spurði hvers vegna hann notaði ekki skjádeiliforrit í stað þess að hitta fólk í eigin persónu.

Gæti vel skemmt símtalið
Til voru veffundarkerfi þar sem hægt var að deila skjánum, en Jói segir þau hafa verið afar þunglamaleg í notkun. „Ef þú ert að taka kalt símtal við einhvern viltu helst ekki þurfa að biðja hann um að eyða mörgum mínútum í að reyna að tengja fjarfundarbúnað sem síðan kannski virkar ekki. Það gæti vel skemmt símtalið að reyna það.“

Lausn CrankWheel felst í því að viðmælandi fær tölvupóst eða SMS með hlekk, eða slær hann inn í vafra. Þar fær hann beint samband eða velur ráðgjafa eftir mynd og nafni, ef fleiri en einn eru að bíða eftir viðskiptavini. Hægt er að nota allt frá ókeypis útgáfu upp í sérsniðna samninga fyrir stórnotendur, en um 2.500 nýir notendur bætast við á mánuði.

Hentar vel fyrir gular línur
Fyrirtækið tók að vaxa hratt erlendis hjá fyrirtækjum sem gjarnan eru kölluð gula línan – arftakar gulu síðnanna í símaskrám. „Þau nota CrankWheel á mjög sniðugan hátt. Sem dæmi hringja þau í lítil fyrirtæki og fólk í eigin rekstri og segjast hafa tekið eftir að þau séu ekki með vefsíðu. Sá sem hringir er þá með uppkast að vefsíðu tilbúið, og býðst til að sýna viðkomandi.“

Flestir segja já, og næsti hálftími eða svo er þá símtal þar sem verið er að nota CrankWheel til að sýna heimasíðuna, og sérsníða hana út frá endurgjöf sem tilvonandi viðskiptavinur veitir í símtalinu. „Eins og þú getur ímyndað þér enda flestir á að kaupa eftir að hafa eytt dágóðum tíma í að smíða heimasíðu með ráðgjafa hinum megin á línunni, enda er þetta vanalega á sanngjörnu verði. Þetta söluferli væri einfaldlega ómögulegt án CrankWheel.“ Í dag nota slík fyrirtæki í 8 löndum lausnina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .