Frá bankahruninu í haust hefur ráðherrum og öðrum þingmönnum verið tíðrætt um að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu. Sú skjaldborg virðist þó hafa litla stoð í veruleikanum.

„Því miður eru margar þessara lausna um skjaldborg heimilanna afskaplega haldlitlar,“ segir Sigurður Arnar Jónsson, forstjóri hjá Intrum á Íslandi.

Hann segir greiðsluvanda fólks augljóslega hafa aukist verulega.

„Gróflega er það þannig að við erum að höndla með helmingi fleiri kröfur en fyrir um einu ári. Innkoman er svipuð og var þá, þannig að hlutfallslega kemur inn minna af peningum og menn eru að semja til lengri tíma. Það eru því mun fleiri kröfur en áður sem við sendum til lögmanna.“

Þá segir hann að nýir hópar, sem áður voru ekki í neinum greiðsluvanda, komi nú til að semja um greiðslur.

„Það er nýr veruleiki fyrir marga að eiga ekki fyrir skuldunum sínum.“