*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 4. mars 2021 18:59

Skjálfti fyrir aðalfund Póstsins

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kallað hafi verið eftir því að stjórnarmönnum í Póstinum verði skipt út fyrir aðra „þægari“.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Tekjur Íslandspósts (ÍSP) af alþjónustu duga ekki til að mæta kostnaði sem fylgir því að veita þjónustuna að sögn Þórhildar Ólafar Helgadóttur, forstjóra félagsins. Pósturinn fékk nýverið 509 milljónir króna frá eiganda sínum fyrir að sinna henni árið 2020. Aðalfundur félagsins fer fram á morgun en þá verður ársreikningur félagsins lagður fram og ný stjórn kjörin. Heimildir blaðsins herma að ekki sé ljóst hvort núverandi stjórnarmenn fái allir að halda sætum sínum.

Samkvæmt árshlutauppgjöri ÍSP fyrir fyrri helming síðasta árs nam EBITDA félagsins 89 milljónum króna en heildarafkoma tímabilsins var neikvæð um 165 milljónir króna. Tekjur námu rúmlega 2,9 milljörðum króna og féllu um rúmlega 180 milljónir króna miðað við sama tímabil árið á undan. Er það þrátt fyrir að 250 milljónir króna, svokallað varúðarframlag sem félagið fékk í árslok 2019 vegna alþjónustu, hafi verið fært til tekna.

Í svari forstjóra Póstsins, við fyrirspurn blaðsins, segir að frá aldamótum hafi bréfasendingum fækkað verulega – síðastliðinn áratug hafa þær dregist saman um tæp 70% – samhliða fjölgun heimila. Kostnaður þjónustunnar dreifist því niður á færri sendingar. Spurningu er laut að afkomu alþjónustunnar árin 2018 og 2019 var ekki hægt að svara þar sem félagið veitti „ekki upplýsingar um afkomu einstakra hluta þjónustu [sinnar]“. Samkvæmt yfirlitum Póstog fjarskiptastofnunar (PFS), um bókhaldslegan aðskilnað ÍSP, var samanlögð afkoma alþjónustunnar árin sem um ræðir neikvæð um tæpa 2,2 milljarða króna en þar af mátti rekja 870 milljónir til sendinga innanlands.

Félagið hafði farið fram á að fá 490 milljónir króna vegna alþjónustunnar í samningaviðræðum við Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) en þær viðræður strönduðu. Samkvæmt fundargerð stjórnar frá nóvember 2019 tjáði fjármálaog efnahagsráðherra formanni og varaformanni stjórnar að félagið mætti gera ráð fyrir 490 milljónum króna frá eiganda vegna alþjónustunnar árið 2020.

PFS tók ákvörðun í málinu um miðjan síðasta mánuð og var þar fallist á útreikninga Póstsins um að alþjónustubyrði félagsins hefði verið 509 milljónir króna á síðasta ári. Alþjónustan tekur til bréfa og böggla upp að tíu kílógrömmum og felur í sér lágmarksþjónustu, dreifingu tvo daga vikunnar, til hvers heimilis á landinu. Í svari PFS við fyrirspurn blaðsins kemur fram að dreifing um fram það hafi verið veitt á markaðsforsendum og ekki myndað grunn til alþjónustubyrði.

Mannabreytingar í stjórn félagsins?

Stjórn Póstsins er, líkt og í öðrum opinberum hlutafélögum, skipuð af stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á þingi. Vanalega er „d‘Hondt-að“ í stjórnirnar þannig að fulltrúar sitjandi ríkisstjórnarflokka myndi meirihluta í stjórnum félaganna. Stjórn ÍSP nú samanstendur af einum fulltrúa frá hverjum ríkisstjórnarflokki auk eins frá Flokki fólksins og öðrum frá Viðreisn. Heimildamenn blaðsins innan úr pólitíkinni herma að stjórnarformaður hafi leitað til handhafa hlutabréfsins, það er fjármála- og efnahagsráðherra, um að íhuga að skipta út stjórnarmönnum sem spyrja ítrekaðra spurninga. Sem stendur sé stjórnin klofin en merkilegt nokk liggur klofningurinn ekki eftir hinum hefðbundnu pólitísku línum. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandspóstur