Hlutabréfamarkaðir og olíuverð máttu þola lækkanir í dag er Seðlabanki Bandaríkjanna varaði við því að hann gæti hugsanlega dregið úr stuðningsaðgerðum við hagkerfið. Auk þess var aukning í kórónuveirusmitum víða um heim, veikleikamerki í kínverska hagkerfinu og valdataka Talíbana í Afganistan ekki til að auka bjartsýni fjárfesta. BBC greinir frá.

Russ Mould, yfirmaður fjárfestinga hjá AJ Bell segir „kokteil áhyggna" skekja fjármálamarkaði. Allir helstu markaðir Evrópu og Bandaríkjanna hafa mátt þola lækkanir í dag.

FTSE 100 vísitala kauphallar London lækkaði um 1,5% og svipaða sögu var að segja um Dax vísitölu kauphallarinnar í Frankfurt. Þá lækkaði S&P 500 um tæplega hálft prósent í fyrstu viðskiptum.