Sá skjálfti sem varð á skuldabréfamarkaði í morgun og í dag má rekja til oftúlkunar á áhrifum lagabreytinga sem frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á gjaldeyrislögum hafa í för með sér, að mati ráðherra, Katrínar Júlíusdóttur. Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu í dag og sagði að með breytingunni, sem tekur út almenna undanþágu frá banni við flutningi króna milli landa vegna viðskipta með skuldabréf sem seðlabankinn telur veðhæf í viðskiptum við bankann.

Katrín sagði að með breytingunni væri Seðlabankanum færðar heimildir til að setja reglur um slíkar undanþágur án þess að þær séu beintengdar við veðhæfið. Hún sagði að seðlabankinn hafi alltaf haft full tök á að setja reglur um aflandskrónur, en þessi breyting varði aðrar krónur í eigu erlendra aðila, svokallaðar álandskrónur. Á meðan seðlabankinn sé ekki að nýta þessar heimildir til reglusetningar þá sé staðan sú sama og áður.

Þegar þetta er skrifað nemur velta á skuldabréfamarkaði tæplega 62,5 milljörðum króna. Velta á markaði hefur aðeins einu sinni verið meiri en í dag frá hruni. Eins og vb.is hefur greint frá hófst dagurinn með gríðarlegum hækkunum á ávöxtunarkröfu margra skuldabréfaflokka og um tíma nam hækkunin á ákveðnum flokkum nær tveimur prósentustigum. Markaðurinn tók svo að róast þegar líða tók á daginn. Hafa hækkanirnar að verulegu leyti gengið til baka, en eru þó umtalsverðar borið saman við stöðuna í gær.