Það var ljóst að með veikari gengi krónu og samdrætti á auglýsingamarkaði í kjölfar bankahrunsins í fyrra yrði rekstur Skjás eins erfiður. Stöðin hafði frá stofnum verið áhorfendum ókeypis og auglýsingatekjur stærsta, og í raun eina, tekjulind stöðvarinnar.

Fljótlega eftir bankahrun var öllum starfsmönnum Skjás eins, tæplega 40 manns, sagt upp störfum. Að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Skjá miðla var þá gripið til neyðaraðgerða til að endurskipuleggja rekstur stöðvarinnar. Ljóst var að minnka þurfti launakostnað og ná samningum við erlenda birgja vegna kaupa á sjónvarpsefni.

„Það hefur tekist,“ segir Sigríður Margrét í samtali við Viðskiptablaðið.

„En það hefur líka kostað töluverðar fórnir. Við sáum okkur ekki fært að endurráða alla aftur en auk þess hefur starfsfólk lagt sig mikið fram við að ná fram hagræðingu.“

Þannig bendir Sigríður Margrét á að launakostnaður hafi frá árinu 2007 lækkað um 45%, það hafi náðst með fækkun stöðugilda auk þess sem núverandi starfsmenn hafi tekið á sig töluverðar launalækkanir.

____________________________

Nánar er fjallað um málið stuttri úttekt um Skjá einn í Viðskiptablaðinu í dag. Skjár einn er 10 ára á þessu ári og í vikunni var sjónvarpsstöðinni, sem alltaf hefur verið ókeypis, breytt í áskriftastöð.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .