Skjár einn hefur gert samning við bandaríska fyrirtækið Twentieth Century Fox og verða nýjustu þáttaraðir sjónvarpsrisans sýndar á sjónvarpsstöðinni frá haustinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Samningurinn við Twentieth Century Fox er sá mikilvægasti sem Skjárinn hefur skrifað undir í áraraðir og tryggir að Skjárinn verður með meira framboð af nýjum sjónvarpsþáttum en nokkru sinni fyrr. Auk þessa samnings er Skjárinn með fasta samninga við Disney og CBS Television um dreifingu  besta sjónvarpsefnis sem völ er á,“ segir Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Símans, eiganda sjónvarpsstöðvarinnar.

Á annan tug nýrra þáttaraða frá Fox verða frumsýndar á Skjá einum í vetur og hefjast sýningar strax í haust. Þeirra á meðal eru Minority Report, Scream Queens, The Bastard Executioner og American Crime Story, en þar leika John Travolta, Cuba Gooding Jr og David Schwimmer aðalhlutverkin . Auk þess má nefna gamanþættina The Grinder með Rob Lowe, Life in Pieces með Colin Hanks og Baskets með grínistanum Zach Galifianakis úr Hangover-myndunum . Allir nýir þættir sem FOX framleiðir verða sýndir á Skjá einum á samningstímanum.

„Við erum virkilega ánægð með að styrkja samband okkar við SkjáEinn á komandi ári og hlökkum til að deila framleiðslu okkar með áskrifendum stöðvarinnar,“ segir Gina Brogi, framkvæmdastjóri hjá Twentieth Century Fox.

Meðal eldri þáttaraða FOX sem fara í streymisþjónustu Skjásins má nefna New Girl, Homeland og The Americans, sem allar eru þó líka enn í framleiðslu auk þátta frá síðustu árum, svo sem Prison Break, 24, The Killing og How I Met Your Mother.