Forsvarsmenn SkjásEins og Morgunblaðsins undirrituðu í dag samstarfssamning sem felur í sér að SkjárEinn mun hefja útsendingar á fréttum í sjónvarpi sem unnar eru af Morgunblaðinu. Fréttirnar verða sýndar kl. 18:50 og endursýndar kl. 21:50 alla virka daga. Fyrsti fréttatíminn fer í loftið fyrir lok mánaðarins segir í tilkynningu.

„Með þessum samstarfssamningi erum við að láta reyna á nýjar leiðir í íslensku sjónvarpi,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjá miðla í tilkynningu. „Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar teljum við að það sé markaður fyrir fréttir frá Morgunblaðinu í sjónvarpi, þær dragi að sér áhorf og þar með auglýsingatekjur og hins vegar viljum við stuðla að frekari miðlun faglegra frétta í íslensku sjónvarpi.“

Samstarfssamningurinn er skilgreindur sem tilraunaverkefni og verður framhald samstarfsins metið í kjölfar mælinga á áhorfi og auglýsingatekjum.

„Morgunblaðið hefur yfirburði í öllum mælingum á trausti almennings til einkarekinna fjölmiðla,“ segir Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins í tilkynningu.  „Við lítum á þetta samstarfsverkefni sem góða leið til þess að styrkja bæði félögin sem koma að þessum samningi.”

Undirbúningur fréttaútsendinga stendur nú sem hæst og er leit að hefjast að næsta „fréttaþul Íslands” en Skjárinn verður með lokaðar prufur af því tilefni nú um helgina.