Yfir fjörutíu starfsmenn Skjásins fluttu úr Skipholti yfir til Símans í Ármúla í gær. Eftir sumarið verður útsendingum Skjásins sjónvarpað þaðan. Þá er stefnt að því að um mánaðamótin verði fyrstu útvarpssendingar K100 úr Ármúla. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við hjá Símanum höfum lengi látið okkur dreyma um að taka þetta skref og fögnum því að geta nú í auknum mæli boðið landsmönnum afþreyingu og sjónvarpsefni ásamt öflugum fjarskiptum,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Sameiningin kemur í kjölfar mikilla breytinga á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði á undanförnum árum sem leiddu til þess að samkeppnisyfirvöld felldu niður kvaðirnar sem komu í veg fyrir að skrefið yrði tekið fyrr.

„Fjarskipti og afþreying er frábær blanda enda internetið það sem drífur nútímasjónvarp áfram – sjónvarp sem bíður möguleika á gagnvirkni og Tímaflakki. Netið gerir einnig viðskiptavinum kleift að streyma sjónvarpsefni í gegnum efnisveitur þvert á landamæri. Það er því afar áhugavert fyrir fjarskiptafyrirtæki eins og Símann að taka slaginn við þekktar veitur í gegnum Sjónvarp Símans og bjóða bæði innlent og erlent sjónvarpsefni sem höfðar til landsmanna,“ segir Orri.