Viðræður um að 365 fjölmiðlasamstæðan taki yfir sjónvarpstöðina Skjáinn hafa átt sér stað að frumkvæði 365-samstæðunnar, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs sem er stærsti hluthafinn í Dagsbrún, móðurfélagi 365 fjölmiðlasamstæðunnar, hefur fundað með Orra Haukssyni hjá Símanum og Lýði Guðmunssyni, stjórnarformanni Exista, en ekki hefur fengist niðurstaða um kaup.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að viðræðurnar hafi snúist að einhverju leyti um að sameina Skjá Sport, sem hefur haft leyfi til þess að sýna leiki úr ensku Úrvalsdeildinni, og íþróttarásina Sýn.

Samkvæmt heimildum blaðsins er ekki búið að slíta viðræðunum en ákvörðun þarf að liggja fyrir í byrjun næstu viku áður en skila þarf kauptilboðum í enska boltann.