Skjárinn og Sagafilm hafa undirritað rammasamning sem felur í sér að  Sagafilm mun annast framleiðslu á innlendu dagskrárefni SkjásEins árið 2008. Sagafilm hefur framleitt þættina Innlit/Útlit og Skólahreysti fyrir SkjáEinn og hefur ríkt ánægja með samstarfið.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá SkjáEinum og Sagafilm.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjá miðla ehf., segir þetta góðan samning fyrir báða aðila. „Samstarfið við Sagafilm hefur gengið að óskum og því gekk vel að ná samkomulagi um frekara samstarf. Rekstur Skjásins er í mjög traustum farvegi og með þessum samningi er styrkari stoðum rennt undir framleiðsluna og reksturinn. Við lítum því björtum augum fram á við.“

„Við erum afskaplega ánægð með það traust sem SkjárEinn sýnir Sagafilm en við búum yfir áralangri reynslu á þessu sviði og höfum framleitt mikið af vönduðu íslensku sjónvarpsefni. Samstarfið við SkjáEinn hefur gengið vel og við hlökkum til frekara samstarfs,“ segir Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm ehf.