Skjárinn hefur tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að uppsagnirnar koma til vegna mikils samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum.

„Vonandi þurfa uppsagnir starfsmanna ekki að taka gildi en uppsagnarfresturinn er í flestum tilvikum þrír mánuðir,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjásins í tilkynningunni.

„Til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þarf tvennt að gerast; annars vegar þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar þarf SkjárEinn að endursemja við erlenda birgja þegar gjaldeyrisviðskipti komast í lag.“

Þá segir Sigríður að stjórnendur og starfsmenn muni taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram.

Skjárinn sér um rekstur auglýsingasjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins. Skjárinn sér einnig um rekstur SkjásBíós, sem er vídeóleiga heima í stofu og SkjásHeims sem veitir áskrift að yfir 60 erlendum sjónvarpsstöðvum.

Þá kemur fram í tilkynningunni að ef uppsagnirnar taka gildi munu breytingarnar hafa áhrif á rekstur SkjásEins en viðskiptavinir munu áfram hafa aðgang að þjónustu SkjásBíós og SkjásHeims.