SkjárKrakkar er nýjung í sjónvarpsþjónustu á Íslandi sem mætti líkja við NetFlix og fleiri sjónvarpsveitur. Áskrifendur greiða eitt mánaðargjald, 1490 krónur, og fá ótakmarkaðan aðgang að talsettu barnaefni í gegnum VOD þjónustu Símans eða Vodafone.

SkjárKrakkar munu bjóða upp á yfir 400 þætti og bíómyndir með íslensku tali. Meðal efnis eru Latibær, Strumparnir, Skoppa og Skrítla, Bubbi byggir og Pósturinn Páll auk fjölda annarra kvikmynda og þátta fyrir börn á öllum aldri. Nýju efni verður reglulega bætt við úrvalið.

Í tilkynningu frá Skjánum kemur fram að þeir séu að svara aukinni eftirspurn viðskiptavina um talsett barnaefni með þessari nýju sjónvarpsþjónustu, fyrst sinnar tegundar á Íslandi.

SkjárKrakkar er aðgengileg öllum sem eru með myndlykil frá Vodafone eða Símanum og hafa aðgang að VOD leigum. SkjárKrakkar verður ókeypis til 15. nóvember.