Félög og einstaklingar tengdir FL Group hafa undanfarið fært eignarhluti sína í félaginu til félaga staðsettra í Hollandi. Svo virðist sem þau séu að sækjast eftir skattahagræði vegna söluhagnaðar.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kom fram að Hannes Smárason, forstjóri FL Group, hefði fært 19,77% hlut sinn í FL Group til Oddaflugs BV sem staðsett er í Hollandi frá Eignarhaldsfélaginu Oddaflug ehf. Þann 29. desember tilkynnti FL Group um færslu á 25,97% hlut sínum í Glitni í tvö eignarhaldsfélög, sem bæði eru staðsett í Hollandi.

"Að baki tilfærslunni eru ýmsar ástæður. FL Group á fyrir eignir í Hollandi og því eðlileg þróun að haldið sé utan um fleiri eignir á sama stað. Þetta tengist líka fjármögnun en eins og kunnugt er hefur FL Group fjármagnað sig að miklu leyti erlendis að undanförnu. Fjármögnunaraðilar krefjast þess iðulega að veðsettar eignir séu vistaðar í sérstökum eignarhaldsfélögum. Að auki er skattaumhverfi eignarhaldsfélaga í Hollandi er hagstæðara en á Íslandi. Að öllu samanlögðu má segja að erlendar fjárfestingar og samskipti við erlendar fjármálstofnanir kalli á ákveðnar breytingar og við erum að svara því kalli með þessum hætti. FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafyrirtæki og vinnur samkvæmt því," sagði Kristján Kristjánsson, talsmaður FL Group.

Hér á landi er arður sem hlutafélög fá greiddan frá öðrum hlutafélögum sem þau eiga eignarhluti í undanþeginn skatti. Þessu er eins farið á Evrópska efnahagssvæðinu þar með talið hjá Evrópusambandinu. Ólíkar reglur gilda hins vegar um skattlagningu hagnaðar af sölu hlutabréfa sem hlutafélög eiga í öðrum félögum. Ísland skattleggur hann að fullu. Hins vegar hafa fyrirtækin möguleika á að fresta skattlagningu hans og kaupi þau önnur hlutabréf innan ákveðins tíma má færa niður kaupverð þeirra um fjárhæð söluhagnaðarins. Ekki kemur því til skattlagningar söluhagnaðarins þegar svo stendur á.

Önnur lönd eins og t. d. Holland undanþiggja hagnaðinn skatti með öllu. Samræmi er því milli skattlagningar arðs og hagnaðar af sölu hlutabréfa sem þau eiga í öðrum félögum. Án þess fyrir liggi hvaða skattahagræði umræddir aðilar eru að slægjast eftir kann þetta að vera skýringin. Hvort aðrir fylgi í kjölfarið er erfitt að segja fyrir um. Flest stóru fyrirtækin eru með dótturfélög erlendis þar með talið í Hollandi. "Þar sem skattur er eins og hver annars kostnaður í rekstri hlýtur skattur af hagnaði af sölu hlutabréfa sem íslensk hlutafélög eiga í öðrum hlutafélögum að vera atriði sem taka verður tillit til við ákvörðun á eignarhaldi þeirra. Íslenska ríkið ætti því að taka af skarið og samræma skattlagningu arðs og hagnaðar hjá atvinnurekendum. Það er löngu orðið tímabært," sagði Ásmundur Vilhjálmsson, skattasérfræðingur hjá Grant Thornton.