Skjölin sem vefurinn Wikileaks birti í gærkvöldi um stríðið í Afganistan hafa vakið bæði athygli og óhug. Skjölin eru um 92 þúsund talsins og eru skýrslur hermanna í Afganistan á árunum 2004-2009. Fréttamiðlarnir The Guardian, Der Spiegel og New York Times hafa haft aðgang að gögnunum í nokkurn tíma en þau voru gerð opinber í gær.

Skjölin þykja gefa skýra mynd af stríði Bandaríkjamanna við Talíbana í Afganistan, mun skýrari en hingað til hefur fengist. Um er að ræða vettvangsskýrslur hermanna í Afganistan og eru flestar þeirra samantekt á aðgerðum hersins. Sumar eru afar nákvæmar.

Að mati New York Times sýna skjölin að í gegnum tíðina hafi Bandaríkjastjórn sagt rangt frá eða gefið misvísandi yfirlýsingar um stöðu mála í Afganistan. Til að mynda kemur fram að Talíbanar hafi styrkst með hverju árinu sem líður, þvert á það sem haldið hefur verið fram.

Skjölin má finna á vef Wikileaks .