Niðurstöður í samstarfsverkefni Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Ríkisskattstjóra benda til þess að umfang svartrar atvinnustarfsemi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum sé að meðaltali um 12%. Í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra segir að útreikningar bendi til þess að glötuð verðmæti vegna undanskota nemi ríflega 13.8 milljörðum króna og er gert ráð fyrir að þar af séu glötuð réttindi launafólks tæplega átta milljarðar króna. Opinber gjöld yfir 400 fyrirtækja verða endurákvörðuð í kjölfar verkefnisins sem framkvæmt var í sumar undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum”.

Verkefnið beindist að fyrirtækjum með veltu undir einum milljarði króna. Markmið þess var að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og bæta skil á lögbundnum gjöldum til opinberra aðila og launatengdum gjöldum til aðila vinnumarkaðarins. Fulltrúar frá RSK, ASÍ og SA heimsóttu yfir tvö þúsund fyrirtæki um allt land og könnuðu bæði rekstur þeirra og aðstæður yfir sex þúsund starfsmanna fyrirtækjanna. Í yfir helmingi heimsóknanna komu brotalamir í ljós. Í flestum tilfellum voru gefin leiðbeinandi tilmæli um lagfæringar en í öðrum tilvikum er efnt til nánari skoðunar eða málum vísað til sérstakrar rannsóknar.