Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hélt á þriðjudag erindi í Nýju Delí á Indlandi þar sem hann fjallaði um viðskipti og hugsanlegan fríverslunarsamning á milli EFTA-ríkjanna og Indlands.

Greint er frá þessu í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í máli sínu gerði Grétar Már grein fyrir þeim fjölmörgu fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert á liðnum árum og lýsti hvernig þeir samningar hafa haft jákvæð áhrif á viðskipti milli ríkja. Þá fjallaði hann um viðskipti Indlands og EFTA-ríkjanna. Í máli hans kom fram að þrátt fyrir mikinn efnahagsuppgang á Indlandi og sterka stöðu EFTA-ríkjanna var innflutningur frá Indlandi á árinu 2005 einungis 0,4% af heildarinnflutningi til EFTA-ríkjanna. Að sama skapi var útflutningur frá EFTA-ríkjunum til Indlands einungis 0,6% af heildarútflutningi þeirra á árinu 2005.

?Þessar tölur sýna skýrt þau gullnu tækifæri sem EFTA og Indlandi bjóðast til að auka viðskipti sín á milli?, sagði Grétar Már í Stiklum. ?Staðreyndin er sú að fríverslunarsamningar auka viðskipti ríkja í milli, bæði í aðdraganda samninga og eftir að þeir hafa tekið gildi.? Hann bætti við að aukin viðskipti við Indland væru augljós hagur beggja aðila, þar eð þessi ríki hefðu samræmanlega viðskiptahagsmuni. Auk þess kynnti Grétar Már mikilvægi annarra viðskiptasamninga, þ.m.t. fjárfestingasamnings, tvísköttunarsamnings og loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Sendiráð Íslands í Nýju Delí mun fylgja þessum málflutningi eftir. Í heimsókn sinni fundaði ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins með hr. Shivshankar Menon, aðstoðarutanríkisráðherra Indlands.

Í Stiklumkemur fram að þeir ræddu hugsanlega fríverslun, fyrirhugaða stofnun sendiráðs Indlands á Íslandi og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Grétar Már átti jafnframt fundi með embættismönnum í ráðuneyti endurnýjanlegra orkugjafa. Sagt var frá áhuga EFTA-landanna á því að ná fríverslunarsamningi við Indland í blaðinu Business Line í kjölfar kynningarinnar. Þar kom einnig fram að Indverjar væru nú að vinna athugun á hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning við EFTA-löndin.

Erindið var flutt á hádegisverðarfundi sem sendiráð Íslands í Nýju Delí og ?Confederation of Indian Industries?, ein helstu hagsmunasamtök í indversku atvinnulífi, stóðu fyrir.