Forráðamenn Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. á Ísafirði hyggjast byggja 5.000 tonna hús á Sundahafnarsvæðinu á Ísafirði undir frystigeymslu og tilheyrandi aðstöðu með stækkunarmöguleikum í upp í 10.000 tonn.

Vefur héraðsfréttarblaðsins Bæjarins Besta á Ísafirði greinir frá því að bæjarstjórn hefur samþykkt erindi Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. um lóð á Sundahafnarsvæðinu. Á fundi hafnarstjórnar þann 1. nóvember var umsókn HG tekin fyrir. Mælti hafnarstjórn þá með því að HG fengi umbeðna lóð og lagði til, að gert verði ráð fyrir frystiklefa á þessum stað við gerð á nýju deiliskipulagi. Engar athugasemdir voru gerðar við umsóknina á fundi umhverfisnefndar og lagt var til við bæjarstjórn að hún samþykkti erindið, sem hún og gerði segir Bæjarins besta.