Fulltrúar frá stórfyrirtækinu Dow Corning og dótturfélagi þess, Hemlock Semiconductor Corporation, heimsóttu Ísland í síðustu viku. Tilgangur heimsóknarinnar var að kanna kosti þess að reisa hér á landi efnaverksmiðju segir í frétt á vefnum hvalfjordur.is

Þar kemur fram að Grundartangi þykir ákjósanlegasti staðurinn, en um tíma var einnig rætt um Eyjafjörð og Þorlákshöfn. Virðast þeir staðsetningarkostir nú alveg út úr myndinni.

Um er að ræða gríðarlega orkufreka framleiðslu en afurð verksmiðjunnar er hreinn fjölkristalla kísilmálmur og er m.a. notaður í sólarafhlöður. Sömuleiðis er framleiðslan mjög plássfrek og því ljóst að umtalsvert landsvæði þyrfti undir verksmiðjuna.

Fulltrúar Dow Corning og Hemlock Semiconductor Corporation eru nú á ferðalögum víðs vegar um heim í þeim tilgangi að velja hentuga staðsetningu fyrir framleiðsluna. Í framhaldinu er reiknað með að fjórir eða fimm staðir verði teknir til nánari skoðunar en ákvörðunar um staðarval er ekki að vænta fyrr en einhvern tíma á næsta ári segir í frétt hvalfjordur.is.