Í Vopnafirði er verið að hefja frumathugun á hagkvæmni þess að búa til hitaveitu fyrir byggðakjarnann sem byggi á nýtingu á ónýttri orku á svæðinu. Sveitarstjóri hefur fundað með fulltrúum Eflu og Jarðfræðistofunnar Stapa um málið. Þá samþykkti Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps á seinasta fundi sínum að vinna áfram að málinu og kanna hvort mögulegt væri að nýta styrk frá Orkusjóði til verksins.

Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri segir að verið sé að skoða þrennskonar varmagjafa sem mögulegt væri að nýta.

„Í frysta lagi er HB Grandi hér með stóra fiskimjölsverksmiðju og við bræðsluna fer gríðarleg orka til spillis. Við getum kallað það “glatvarma” sem þá tapast. Höfum við áhuga á að skoða hvort möguleiki sé á að nýta þetta fyrir samfélagið. Í öðru lagi erum við eins og flest sveitarfélög með sorp sem þarf að farga með töluverðum kostnaði. Við viljum skoða hvort ekki er mögulegt að farga hluta sorpsins með brennslu og nýta varmann sem þar fæst í hitaveitu á staðnum.

Í þriðja lagi þá er hér uppi í Selárdal í um 8 kílómetra fjarlægð frá plássinu með heitt vatn sem er um 50 gráður. Við viljum láta skoða hvort ekki er hægt að finna enn meira af 50 gráðu heitu vatni. Síðan myndum við nota svokallaðar varmadælur til að skerpa á hitanum og ná honum kannski upp í 70 gráður.

Við höfum hug á að fá verkfræðistofuna Eflu til að gera úttekt á þessum kostum og meta hvort þetta geti verið hagkvæmt. Einnig höfum við verið að skoða þetta með jarðfræðistofunni Stapa hvort mögulegt sé að finna meira vatn inni í Selárdal. Þar er búið að gera frumrannsóknir og bora svokallaðar hitastigulsholur sem lofa góðu. Menn eru því komnir á rekspöl með hvar líklegast væri að finna meira af heittu vatni. Það er þó ekkert gefið í þessu fyrr en í ausuna er komið."

Þorsteinn reiknar með að það geti tekið um tvo til mánuði að vinna forathugun á þessu verkefni. Síðan þyrfti að kynna þær niðurstöður og átta sig á hver yrðu næstu skref í málinu. Hann segir að á Vopnafirði noti menn yfirleitt rafmagn til að kynda hús sín. Hitaveita myndi eðlilega kalla á mikla lagnavinnu sem kosti án efa töluverðar upphæðir en skapi þá um leið atvinnu á meðan framkvæmdir stæðu yfir. Þá nefnir Þorsteinn að hugsanlega mætti sækja styrki til þessara framkvæmda til Evrópusambandsins á þeim forsendum að um vistvæna aðgerð sé að ræða.

Jarðhiti sem er til staðar í Selárdal hefur verið nýttur í sundlaug sem þar er. Nýbyggð og endurbætt fiskbræðsla HB Granda er einnig afar vistvæn og er einungis knúinn af raforku, en nýtti áður olíu. Þessu til viðbótar hefur RARIK sett upp öflugar dísilvarafalstöðvar á Vopnafirði, en hita frá þeim mætti hugsanlega einnig nýta til hitaveitu. Telur Þorsteinn að hugsanlega mætti stofna félag um slíka hitaveitu með aðkomu Vopnafjarðarhrepps, RARIK, Norðurorku og jafnvel HP Granda og fleiri aðila.

„Allt er þetta þó á frumstigi," segir Þorsteinn.