Árni Tómason, formaður skilanefndar Glitnis, segir að önnur tveggja leiða sem séu til skoðunar við endurreisn bankans felist í því að stofnað verði eignarhaldsfélag (e holding) utan um eignarhlutinn í Íslandsbanka.

Árni sagði að ekki lægi fyrir hverjir kröfuhafarnir væru, það lægi ekki fyrir fyrr en kröfulýsingafrestur er útrunnin.

Ef farin verður sú leið að notast við eignarhaldsfélag verður það alfarið í eigu gamla bankans sagði Árni. ,,Ef einhverjir aðrir hluthafar koma inn þá er það bara eignarhaldsfélag þeirra sem eiga bankann en væntanlega yrðu gömlu bankarnir stærstir þar ef af þessari lausn yrði.“

- Hve líklegt er að af þessari niðurstöðu verði? -  ,,Það er verið að ganga frá því að halda þessum möguleikum opnum ásamt öðrum á meðan menn eru að fara í nánari áreiðanleikakönnun.“

- Nú liggur fyrir að þetta þarf að vera tilbúið á mánudag?

,,Það er samkomulagið sem er, en þá eru menn búnir að móta það hvort það verður farin leið A eða leið B og menn geta haldið þessu opnu aðeins lengur á meðan mál eru að skýrast ennfrekar.“

Þetta er því önnur tveggja leiða en hin leiðin felst í því að ríkið eignist bankann alfarið. Að sögn Árna yrði að færa eignir inn í þetta eignarhaldsfélag  ef af þeirri leið verður.