Fjármálaeftirlitið hefur undanfarna mánuði skoðað hversu hátt hlutfall útlána viðskiptabankanna var veitt gegn tryggingu í eigin bréfum. Slík útlán hafa áhrif á eiginfjárhlutfall bankans sem getur takmarkað önnur umsvif hans. Grunur leikur á að bankarnir hafi farið yfir lögbundin hámörk í þessum lánveitingum.

„Fjármálafyrirtæki má ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem nemur hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins,“ segir í 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Það þýðir í raun að leggja verður saman hlutabréfin sem bankinn á í sjálfum sér og hlutabréfin sem eru að veði fyrir lánum. Þeir sem þekkja til rannsóknar á starfsemi bankanna telja augljóst að þessi lög hafi verið brotin þegar umfang lána til kaupa á hlutabréfum bankanna óx jafnt og þétt þegar leið á árið 2008. Stjórnendum bankanna hafi verið umhugað um að rjúfa ekki 10% múrinn hvað varðar eignarhald á eigin bréfum. Hins vegar hafi minni athygli beinst að magni bréfa sem voru að veði fyrir lánum.