Stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem framleiðir drykkjarvörur og matvæli skoðar nú möguleika þess að reisa vatnsverksmiðju á Húsavík. Ekki fæst uppgefið hvert fyrirtækið er en talið er að um 20 störf gætu skapast á Húsavík með tilkomu verksmiðjunnar. Félagið hyggst standa sjálft að framkvæmdum.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, segir málið á frumstigi. Nokkrar vikur eru síðan síðast heyrðist frá fyrirtækinu sem fyrst fór að leita hófanna síðasta haust. Reinhard sagði að sveitarfélagið sé opið fyrir frekari viðræðum þó ekki hafi verið skrifað undir neinar skuldbindingar ennþá.

Að sögn Reinhards hafa umræddir aðilar verið að leita að grunnupplýsingum svo sem þeim er lúta að magni og gæðum vatns, staðsetningu á vatnsbólum, hafnaraðstæðum og möguleikum á lóð fyrir átöppunarverksmiðju. Rætt er um að tappa vatninu á litla brúsa eða flöskur. Sjá þá menn fyrir sér að þarna sé um að ræða útflutning á brettum og þetta kallar á nokkuð mörg störf. Því sé málið áhugavert út frá atvinnusjónarmiðum.