Viðskiptanefnd Alþingis ræddi á fundi sínum á föstudag um nauðsyn þess að breyta lögum til að lengja fyrningarfrest riftanlegra gjörninga, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir tveggja ára fyrningarfresti sem er í mörgum tilvikum að renna út.

Frumvarp um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti til að lengja riftunarfrestinn var lagt fram á Alþingi í nóvember en bíður enn afgreiðslu. Fyrsti flutningsmaður þess er Helgi Hjörvar. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ljóst sé „að fjölmargir hafa gripið til ráðstafana í kjölfar bankahrunsins sem flokkast geta sem málamyndagjörningar og undanskot eigna og getur það ekki liðist að þeir aðilar verði látnir komast upp með slíkt. Til að koma í veg fyrir háttsemi af þessu tagi er lagt til í frumvarpi þessu að tímamörk og frestir riftunar ráðstafana þrotamanna skuli miðaðir við fjögur ár fyrir frestdag.“