Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að flugfélagið skoði nú alvarlega að bæta við tveimur MAX vélum fyrir næsta sumar, til viðbótar við þær tólf sem félagið hefur tekið við eða eru í pöntun. Hann segir að það hafi verið stórt verkefni að taka MAX vélar félagsins aftur inn í flotann en að verkefnið hafi gengið vonum framar.

„Í hreinskilni sagt hefur þetta gengið mun betur en við gerðum ráð fyrir. Það voru mjög fáir viðskiptavinir okkar sem höfðu áhyggjur af því að fljúga í þessari vél. Ég held þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar sem báðu um einhverjar breytingar. Viðbrögðin frá viðskiptavinum sem hafa flogið með þessari vél eru frábær,“ sagði Bogi á uppgjörsfundi núna í morgun.

Sjá einnig: Icelandair tapaði 6,9 milljörðum

Hann bætir einnig við að vélin hafi staðið sig vel í rekstri á síðustu vikum og mánuðum. „Eldsneytisnotkunin var minni en við gerðum ráð fyrir og flugdrægnin meiri. Við erum því að sjá fram á að MAX vélin mun sinna okkar leiðakerfi enn betur en við gerðum ráð fyrir þegar hún var pöntuð árið 2012.“

Fyrir vikið sé Icelandair núna að „skoða alvarlega að bæta við tveimur nýjum MAX vélum fyrir næsta sumar. Við sjáum tækifæri í leiðakerfinu hvað það varðar.“ Bogi segir að mikil eftirspurn hafi verið hjá leigusölum og flugvélaframleiðendum að eiga viðskipti við Icelandir upp á síðkastið.

Niðurstaða í flotastefnu væntanleg fyrir árslok

Icelandair tók við þremur Boeing 737 MAX vélum á öðrum ársfjórðungi og er nú með níu MAX vélar í flota sínum. Þar af hafa sjö verið teknar í notkun en félagið áætlar að hinar tvær verði teknar aftur inn fyrir lok ágúst.

Bogi segir að Icelandair muni taka við þremur MAX vélum um næstu áramót og fjármögnun á þeim sé á lokastigi. Mikil eftirspurn hafi verið meðal fjármögnunaraðilum að fjármagna vélarnar, að sögn Boga.

Þá hafi Icelandair einnig hafið endurskoðun á langtímaflotastefnu sína á ný. Þar verður horft til að finna arftaka Boeing 757 vélanna. „Við stefnum á að vera með niðurstöðu í því verkefni fyrir lok þessa árs,“ segir Bogi.

Myndin hér til vinstri er tekin úr fjárfestingakynningunni núna í morgun. Myndin hægra megin er tekin frá fjárfestakynningu fyrir hlutafjárútboð Icelandair síðasta haust.